28.1.2009 | 17:22
Helgin góða í Tilburg!
Ég ætla að setja inn nokkrar myndir, sem Lilja tók á sína myndavél, frá helginni sem byrjaði í hóptíma hja Lottie og endaði á ævintýri í Tilburg! Góða skemmtun.
Ég að syngja Vitelliu í hóptíma, þetta er salurinn okkar!
Ég, Simone og Caro með kampavín í upphaf heimsóknar í Tilburg!
Við matarborðið. Fengum fyrst sjávarréttasúpu, og svo ferskt pasta með heimatilbúnu pesto! Og auðvitað hvítvín með.
Svo sungum við og Lilja spilaði með okkur! Hentugt að hafa píanóleikara í hópnum!
Það var svo slakað á við arininn!
ég og Flexy! Já okkur kom vel saman:)
Ég og Simone a leiðinni í pottinn góða!
að leggja af stað í ævintýragarðinn.
Komnar inn í garðinn!
Sverðiði í steininum!
Lilja í hringekjunni!
Auðvitað fengum við okkur pulsu!
Simone á svepp!
Rauðhetta ...og úlfurinn!
Sætar vinkonur.
skálað í Glühwein!
Góður dagur að kvöldi kominn.....
... og yndislegu gestgjafarnir okkar Josefin og Hidde.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 21:57
lífið mitt þessa dagana!
Hvað er gerast í mínu lífi? Eins og ég var búin að lofa þá ætla ég að segja ykkur aðeins hvað er að gerast í mínu lifi þessa stundina. Manni finnst það nú eitthvað svo lítilsvert miðað við öll lætin sem eru að gerast heim, hvað litla Þórunn er að gera í Utrecht. En núna er í búin að vera úti í rúma viku og allt komið í fastar skorður. Það eru reyndar ennþá verkefnavikur í skólanum sem þýðir að það eru engin aukafög kennd, bara söngur. Sem er rosalega fínt fyrir mig. Ég er auðvitað á fullu í söngtímum og var Lottie mjög ánægð með mig eftir fríið, var að hafa smá áhyggjur af því að ég kæmi alltof þreytt út, aftur og dottin í sama gamla farið en sem betur fer var það ekki svo. Ég er að æfa Vitelliu sem er algjör tík (gaman að því) úr La clemenza di Tito, þetta er rosalega stórt hlutverk og spannar mjög stórt raddsvið en þetta er eitt af dramatískustu kvennhlutverkum sem Mozart skrifaði og er ég rosalega glöð að vera að syngja þetta, þvílíkt gaman. Söng hana í hóptíma á föstudaginn og það gekk bara mjög vel. Svo er næsta verkefni Frauenliebe und Liben eftir Schumann með strengjakvartett sem ég líka mjög spennandi. Þannig að það er nóg að gera.
Svo fórum við Lilja, Simone og Carolien til Tilburg á föstudaginn og vorum alla helgina. Mamma hennar Caro bauð okkur að vera hjá sér en hún er gift algjörum milla og vorum við í þvílíku dekri! Það var æði, við fórum í heitapottinn, lágum í saunanu og borðuðum þvílíkt fínan mat og allt sem við gátum í okkur látið! Margar tegundir af víni með matnum, enda auðvitað með vínkjallara og bar! Ég hef aldrei lent í öðru eins. Svo fórum við í Efteling sem er svona svipaður garður og Disney. Mjög skemmtilegur og lét ég mig meira að segja hafa það og fór í rússíbana, alveg satt!!! Þannig að ef systkini mín koma í heimsókn þá ætla ég með þau þangað.
Svo er bara ný vika framundan með æfingum og lærdómi! Ætla svo að fara að koma mér í gírinn að hlaupa eða hreyfa mig eitthvað! Svo við sjáum hvað gerist í þeim málum;)
Knús og kossar í bili:*
Ykkar Þórunn
15.1.2009 | 19:40
Komin aftur!
Þá er alvara lífsins hafin enn á ný! Ég er búin að hafa það yndislegt í faðmi fjölskyldunnar og vina um jólin. Þetta var einhvern veginn ekki nógu langur tími eða þá að hann var alltof fljótur að líða. Brjálað að gera í jólaboðum og svo að syngja svona hér og þar mér til ánægju og yndisauka, alveg dásamlegt að hitta alla og enn safnast saman yndislegar minningar sem glitra sem perlur í huga mér.
Það var ótrúlega skrýtin tilfinning að koma "heim" aftur. Lilja sagði þegar bið lentum velkomin heim og ég sagði þetta er ekki heim en kannski annað heimilið mitt. Því það verður alltaf eitt heim í mínum huga og það er á Íslandi. Stundum verð ég þreytt á því að vera svona hrikalega tilfinninganæm! Er búin að vera hálf grátandi alla vikuna og bara yfir fegurðinni í kringum mig eða uppúr þurru. Keyrði niður að Viðey á mánudaginn og sat bara í bílnum og dáðist að fegurðinni með tárin í augunum og tók inn alla orku sem ég gat og ætla að fara aftur á þennan stað þegar ég fæ sem mesta heimþrá. Ferðalagið gekk vel og hlakka ég bara til að hitta alla á morgun og komast aftur í rútínu. Markmiði með önninni er að vera glöð og kát og læra eins mikið og ég get og auðvitað að gera mitt besta, get víst ekki gert meira en það. Ég er búin að fá margar athugasemdir um að ég sé léleg að blogga og það er annað markmið. Að segja meira hvað ég er að gera í skólanum og auðvitað bara hversdagslífinu sem er nú fábreytt á allan hátt eins og gamla konan sem sagði alltaf fyrirgefðu þegar hún bar eitthvað fram eða færði litla gjöf. Ég ætla að fara á morgun, eftir skóla, og kaupa mér blóm og byrja að rækta kryddjurtir í glugganum mínum. Það vantar sárlega eitthvað grænt í íbúðina því öll blómin dóu því miður í kuldanum um jólin. Ég hef lært það að það eru þessir hlutir sem fegra lífið. Bara það að kveikja á kertum þegar við komum heim í dag bjargaði öllu! Þá varð allt heimilislegt aftur og auðvitað yndislega kaffidótið mitt sem ég er búin að sakna mikið yfir jólin því eins og allir vita sem eru tíðir gestir í Foldasmáranum þá er kaffið þar annaðhvort of sterkt eða soðið. Fyrirgefðu mamma mín en þetta er bara staðreynd! Það verður að gera eitthvað rótækt í málunum og ég veit að Brynja er sammála mér. Allavega það er alltaf eitthvað til að gleðjast yfir.
Þangað til næst
Ykkar Þórunn Vala
25.12.2008 | 16:25
Jólakveðja
ELsku Vinir
Guð gefi ykkur gleðileg jól og heillaríkt komandi ár! Takk fyrir allar yndislegar kveðjur á árinu og allan stuðninginn í gegnum súrt og sætt! Hann er mér ómetanlegur. Megi nýja árið verða okkur öllum skemmtilegt með stórum sigrum og gleði og ást!
Þykir óendanlega vænt um ykkur öll sem fylgist með mér hérna á litlu síðunni minni!
Ykkar Þórunn Vala
25.12.2008 | 16:22
Komin heim!
Elsku vinir!
Ég er komin heim í yndislegt jólafrí. Ætla ekki að blogga á meðan ég er heima en verð hérna til 15. janúar svo það er nægur tími til að hittast og gleðjast saman!
Þúsund kossar úr Foldasmáranum
Ykkar Þórunn
26.11.2008 | 17:01
Ef ástin væri...
Ef ástin væri aðeins leyndarmál og lífið væri blóm lítil gleym mér ei, þá væri ég fleygur fugl, þá væri ég fugl. Þessi lína kom upp í huga mér þegar í byrjaði að skrifa, veit ekki ef hverju. Kannski bara af því að mér finnst hún falleg. Ég elska að skrifa niður í bókina mína falleg ljóð og speki og þetta er ein af mínum uppáhalds setningum. Ég er farin að hlakka svo mikið til að koma heim að það kemst fátt annað fyrir í hausnum á mér þessa dagana. Ég er þó mjög dugleg að æfa mig og læra. Var í söngtíma í dag og er alveg orðin rugluð á þessu öllu saman ætli ég endi ekki bara sem bassi með þessu áframhaldi, það gekk mjög vel en hún er enn að reyna að átta sig á því hvaða radd týpa ég er og er alltaf að breyta um skoðun. En í dag sagði hún þú ert mezzosópran og ég er ekki að grínast! Þú verður svo kannski dramatískur sópran eftir tíu ár. En ég skal lofa ykkur að ég get sagt ykkur eitthvað allt annað í næstu viku, bíðiði bara!!! en þetta er mjög spennandi allt saman. Svo var ég eitthvað stressuð að segja henni frá því að ég er að fara að syngja Messías með Schola Cantorum um jólin en henni fannst það frábært sagði bara Þórunn mín það eina sem þú verður að gera er að vera röddinni þinni trú!
Svo er aðventan að ganga í garð og Þakkargjörðahátíðin á morgun og að því tilefni ætla Halli og Heiðrún að bjóða stórfjölskyldunni í Kalkún ekkert smá flott og Lilja gerði jóla ísinn svo þetta verður þvílík veisla. Svo er búið að plana allar helgar fram að heimkomu og eintóm partý, partý, partý og tónleikar þannig að ég er viss um að tíminn á eftir að fljúga áfram (sem betur fer). Annars væri gaman að fá fréttir af ykkur svo endilega kommentið og segið mér hvernig lifið og tilveran gengur hvar sem er í heiminum!
Elska ykkur öllu!
Ykkar Þórunn Vala
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.11.2008 | 21:43
Bros- stysta fjarlægð milli tveggja einstaklinga!
Þessa sentnigu skrifaði yndisleg kona í kort til mín fyrir nokkrum árum. Þetta er svo ótrúlega satt, þegar maður tekst á við erfiða hluti og sigrast á þeim þá stendur maður uppi sem sigurvegari. Undanfarnar vikur hafa ekki verið auðveldar hjá mér. Leigusalinn kom á miðvikudaginn og hótaði að henda mér út af því að greiðslan hafði ekki borist. Svo auðvitð allt og allt, en það er komið í lag núna sem betur fer. Ég sat í dag á bókasafninu á Oudegracht, sem er aðal gatan við aðalsíkið í borginni, drakk kaffið mitt og horfði út um gluggann á allt fólkið sem gekk framhjá. Það var harmonikkuleikari að spila fyrir utan og mér fannst eins og ég væri stödd í bíómyndinni Amelie, sem mér finnst yndisleg. Þetta var í fyrsta skipti í langan tíma sem ég bara sat og hugsaði hérna líður mér vel!
Það er mikið að gera í skólanum og fullt af verkefnum en þó aðalega undirbúningur fyrir jólatónleikana, sem eru 12. des, svo er ég að fara að syngja eina af dömunum þremur úr Töfraflautunni með Simone og Caroline á opnum degi í skólanum þann 29. nóv. Nóg að gera að undirbúa það. Lilja er í undirleikaranámi hérna með söngnum, hún er með hádegistónleika í desember og er ég að syngja hjá henni eina litla aríu út Messíasi. Ég byrjaði á hollenskunámskeiðinu á vegum skólans í gær og er það alveg fram í apríl, á hverju mánudagskvöldi, þvílíkur lúxus. Það var mjög gaman og kann ég núna að segja svona helstu aðal atriði. Ik ben Þórunn, Ik kom uit Ijsland, Ik woon in Utrecht, Ik studeer Musik ...... þessi kúrs er byggður þannig upp að maður geti talað og bjargað sér. Það er ekki lögð mikil áhersla á málfræði en auðvitað fléttast hún inní. Þetta finnst mér frábært því það er svo mikilvægt að læra málið. Annars hlakka ég bara enn meira til að koma heim og það styttist og styttist.....
Sendi ykkur öllum sólskinsbros frá mínu dýpstu hjartarótum! Því það sem sólskinið er blómunum eru brosin mannfólkinu!
Ykkar Þórunn Vala
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.11.2008 | 22:18
Þetta er allt að koma!
Það er ekki hægt að segja annað en að litla Þórunn Vala þurfi að hafa fyrir hlutunum! En eins og hún vitra amma mín Tóta segir þá væri maður verður bara stekari karakter fyrir vikið og við heitum ekki Þórunn fyrir ekki neitt! Annars er lífð aftur komið í fastar skorður eftir allt saman er reyndar ennþá í stríði við bankakerfið en hver er það nú ekki þessa dagana!!! Ég er byrjuð að vinna smá í skólanum við hin ýmsu skrifstofustörf og svo er líklegt að ég geti fengið vinnu við þrif í heimahúsum svo þetta er allt að koma. Ég hef nú borgað söngnámið mitt með þrifum hingað til svo af hverju að hætta því núna. Ég verð nú samt að viðurkenna það að mér finnst gaman að þrífa svo fær maður að kynnast svo yndislegu lífsreynslu fólki í leiðinni.
Svo eru það bara blessuð jólin, mér hefur alltaf fundist þau mega vera lengri svo í ár hef ég ákveðið að byrja extra snemma og fá nú nokkur útvöld jólalög að laumast með ...... það er bara krydd í tilveruna maður hætti hvort sem er stax að hlusta þegar jólin loksins koma og ekki nema fimm vikur þangað til ég kem heim! Það er líka allt í jólaskreuti hérna svo maður kemst ekki hjá því að taka þátt! Ætla að reyna að draga Lilju með mér í IKEA fljótlega til að kaupa kannski eina seríu og sýna Hollendingum hvernig við Íslendingar gerum þetta.
Annars sendi ég baráttukveðjur heim og þúsund kossa og knús!
Ykkar Þórunn Vala
p.s Þið getið skoðað myndir á síðunni hennar Lilju, á nefnilega ekki lengur myndavél!
3.11.2008 | 17:34
Elsku bestu vinir mínir!
Mig langar til að þakka öllum fyrir yndislegar kveðjur. Þær ylja mér um hjartarætur og enn og aftur finnur maður hvað maður á marga góða að og yndislega vini! Þvílíkur plástur á hjartað. Ég er öll að skríða saman og augað orðið jafn stórt og hitt og marið farið! Er orðin simmitrísk aftur ..... hahhahaha! Ætla nú ekki að hafa þetta langt í bili en er farin að telja dagana þangað til ég kem heim bara sex helgar og er það ekki neitt! Tíminn á eftir að fljuga áfram og fullt af skemmtilegum verkefnum framundn. Við erum að syngja óratoríur núna og er ég að syngja dúett með mega alt sem heitir Nicky ekkert smá skemmtilegt svo eru allskonar ensambles í gangi úr Eliah eftir Mendelsohn, Requiem eftri Mozart og fleira spennandi! Það er líf þessari deild! Eftir það kemur franskt þema og svo jólin auðvitað. Það er planað að syngja hluta eða allt Cermony of Carols eftir Britten sem hefur verið fastur liður eins og venjulega hjá Graduale Nobili fyrir jólin svo ég missi ekki af því að syngja þetta yndislega verk! En það sem er skemmtilegast við þetta allt saman að það eru allir svo góðir vinir og enginn metingur eða stælar. Það eru allir komnir þarna til að læra og standa saman. Vinkonur okkar Simone, Caroline og Marie eru yndislegar og eru það forrétindi að eignast svona góða vini hérna. Það er allsstaða gott fólk!
Þangað til næst....
Þúsund kossar og risa faðmur til ykkar allra!
Ykkar Þórunn Vala
1.11.2008 | 23:11
Lífsreynsla
Fólki finnst kannski skrýtið að lesa kommentin á síðunni minni núna en þannig er mál með vexti að það var ráðist á mig á síðasta sunnudag. Þetta var mikil lífsreynsla! Ég var búin að eiga yndislegan dag hjá elsku Nonna mínum í A´dam. Við vorum að kjafta og hafa það skemmtilegt og um leið að fara í gegnum hin ýmsu dýrmæti í litla eldhúsinu í Jóns húsi. Ég var svo fegin að vera snemma á ferðinni heim af því að það var leiðindar veður, rigning og mikið myrkur en klukkan bara sex þegar ég lagði af stað frá honum. Ég var svo glöð en eins og flestir vita þá þarf ég að hjóla allnokkra vegalengd heim til mín. Ég átti bara þrjár mínútur eftir þegar ég heyri í vespu (scooter) gefa í á bak við mig. Ég hélt að þessi manneskja væri bara að láta mig vita að hún væri að fara framhjá en þá er rifið í töskuna mína og ég þeytist af hjólinu með miklum látum og missi auðvitað töskuna frá mér. Þeir stoppuðu en þetta voru tveir strákar og annar hljóp í áttina til mín og, saklausa ég, hélt að hann ætlaði að hjálpa mér en nei hann tók töskuna mína og þeir brunuðu í burtu. Ég hljóp á eftir þeim og öskraði auðvitað í þvílíku sjokki. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég er öll í blóði og það fossaði úr andlitinu á mér. Ég fékk algjört áfall og sá bara fyrir mér að mér myndi blæða út þarna og enginn myndi finna mig en ég var sem betur fer með símann í vasanum og gat hringt í Lilju, ég var svolitla stund að koma því útúr mér hvað hefði gerst hágrátandi út á götu. Þá kom stelpa hjólandi á móti mér og eldri maður út úr húsinu, þau fylgdu mér inn og konan hans þreyf á mér andlitið og þau hringdu á lögregluna. Þau voru yndisleg þetta fólk og stelpan túlkaði allt fyrir mig af því að þau töluðu auðvitað ekki ensku. Svo kom Lilja og ég hringdi í Nonna til að biðja hann um að láta mömmu og pabba vita svo þau gætu lokað kortunum mínum. Sól og Stefán voru þá á leiðinni til okkar líka. Lögreglan kom og þeir fóru með mér á spítalann til að láta líma saman sárið á enninu og svo fórum við á lögreglustöðina til að gera skýrsluna. En ég sem sagt missti öll kortin mín, pening (hef ekki verið pening í veskinu i margar viku, heppnir þeir!), myndavélina, The Stucture of Singing bókina, snyrtidótið mitt og dagbókina og svo var hjólið mitt auðvitað allt beyglað og skælt. Ég var samt svo fegin að þeir réðust ekki meira á mig með hníf eða eitthvað þeim mun verra. Þetta eru bara dauðir hlutir! Á meðan allt þetta var að gerast fór Lilja heim með Stefáni og Sól og hringdi í Daniellu leigusalann okkar til að skipta um lás hjá okkur. En það þurfti að skipta um lása á öllu húsinu sem verður nú ekki ókeypis en ég tek bara á því þegar þar að kemur.
Þessi vika er búin að taka á og margar hugsanir fara í gegnum hugan af hverju fólk gerir svona hluti en þetta er víst algengt hérna en samt ekki algengra en það að þetta atvik mitt kom í blöðunum. Þetta eru víst unglings strákar af erlendu begi brotnu sem stunda þetta og þarf maður að passa hvar maður hefur töskuna sína! Ekki á vinstri öxl og helst undir kápunni. Svo er mjög gott að hafa peningana og kort einhvers staðar annars staðar. Núna er ég reynslunni ríkari og ætla að taka strædó oftar og nota hjólið á daginn og þegar það fer að birta aftur. Ég er öll að skríða saman og hjólaði heim í myrkrinu með Palla frænda í gær. Hann var hjá okkur í nótt og höfðum við það yndislegt saman.
Það er yndislegt fólk í kringum mig og fékk ég alveg dásamlegt kort og gjöf frá krökkunum í skólanum í gær en það var auðvitað hugmyndin hennar elsku Sól minnar. Svo eru bara mikilu fleiri yndislegar manneskjur í heiminum heldur en þessar örfáu hræður sem skemma fyrir hinum og það er mikilvægt að muna það. Fólk er gott og en og aftur lífið er yndislegt!
Ykkar Þórunn Vala
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)