21.6.2009 | 12:02
Síðustu dagarnir í Hollandi!
Síðustu dagarnir eru búnir að vera yndislegir hérna í Hollandi! Prófin gengu öll roslega vel og komst ég inn á annað árið. Söngprófið á fyrsta ári er það mikilvægasta því ef þú nærð því ekki þá máttu ekki halda áfram í skólanum. Ég er umkringd yndislegu fólki hérna og fór ég um síðustu helgi með Simone og Thomasi til Andwerpen og hef ég nú aldrei upplifað annan eins luxus með sundlaug í garðinum og fleira fínerí. En það er nú víst ekki það sem telur heldur yndisegu vinir mínir. Því hvað eru peningar ef þá átt ekki góða fjölskyldu og vini sem styðja þg í gegnum súrt og sætt. Þessi vetur er búinn að vera mjög lærdómsríkur og held ég að ég hafi þroskast meira á þessu ári en ég hef gert alla mína ævi. Kannski bara loksins að verða fullorðin ef maður verður það nú einhverntíman!
Síðustu daga er ég búin að eyða miklum tíma í Amsterdam í góðu yfirlæti. En nú er komið að heimför og get ég ekki beðið eftir að sjá alla og knúsa og kyssa og eiga yndislegar stundir á Íslandinu góða!
Sjáumst sem fyrst!
Ykkar Þórunn
1.6.2009 | 17:05
Hvað er að gerast í mínu lífi þessa dagana?
Var að hugsa um að gera bara lista yfir allt sem ég er búin að gera undanfarna daga en ákvað að það væri kannski leiðinlegt. Ég er búin að eyða dögunum í góðu yfirlæti í Amsterdam, drekkandi kott kaffi, hlusta á tónleika og hitti góða vini. Við Nonni fórum í dagsferð til Marken og Volendam og ég á eftir að taka alla gesti sem koma þangað þvi þessir bæir eru yndislegir, litlir og fallegir!
Við stelpurnar hennar Charlotte áttum dag með henni í Purmerend á fimmtudaginn og héldum litla tónleika fyrir vini og vandamenn. Þetta var alveg frábært. Ég söng allt prógrammið mitt fyrir prófið og núna veit ég nákvæmlega hvað ég þarf að laga og hvað ekki!
Og núna um helgina fór ég í heimsókn til Palla í Nijmegen. Kominn tími til, ég hálf skammast mín fyrir það hvað ég er búin að vera léleg að fara í heimsókn. En Gísli og Jonni komu frá Svíþjóð og skoðuðum við Nijmegen á laugardaginn, elduðum pizzu og fórum í bíó. Svo fórum við til Amsterdam í gær og gerðum allt það mest spennandi fyrir 17 ára og þið getið bara fyllt í eyðurnar...
Það var þvílíkt gaman hjá okkur og enduðum við góðan dag á Hard Rock og fengum okkur ekta hamborgara! Vonandi koma myndir seinna en Palli og Jonni tóku fullt af skemmtilegum myndum.
Venjuleg kennsla er búin svo núna er bara að bíða eftir prófunum en ég fer í þrjú próf þann 8. og 9. júní og svo er söngprófið 17. júní svo hugsið til mín!
Og svo kem ég heim!!!
Kossar Þórunn
19.5.2009 | 08:46
Mozart tónleikar!
17.5.2009 | 19:41
La vita è bella!
Það helsta í fréttu af hrakförum mínum í Hollandi eru að við vinkonurnar skelltum okkur til Frieslands í fríinu um daginn. Tengdaforeldrar Simone eiga hús og báta þar og var okkur Sól og Caro boðið að koma með. Fyrsta daginn var smá rigning svo það var ákveðið að fara út á mótorbátnum eða sloop eins og hann er kallaður (veit ekki hvort þetta sé rétt skrifað). Það var of mikill vindur til að fara á seglbátnum. Við komum okkur vel fyrir og fyrsta stopp var lítill bær þar sem við fengum okkur heitt kakó til að ylja okkur. Þegar við vorum á leiðinn frá þessum bæ þá klesstum við á trérót í botninum og stýrið aftaná eða stélið datt af. Og viti menn þá kom líka þess helli demba og þvílíkt rok og sátum við föst úti á vatninu í næstum einn og hálfa tíma. Að bíða eftir hafnarstjóranum sem kom og dró okkur í land og það þurfti hvoki meira né minna en tvo báta. Það sem eftir var af ferðinn ferðuðumst við bara um í bíl og skoðuðum yndisleg þorp.
Annars voru Mozart tónleikarnir í gær og þeir gengu bara rosalega vel. Svolítið skrítið að vera svona fjölskyldulaus að syngja á tónleikum en auðvitað hef ég fullt af fólki í kringum mig hérna, ég get sko ekki kvartað! Svo eru það bara prófin sem taka við núna og er ég að fara í þýsku framburðarpróf á morgun. Það kemur í ljós hvernig það fer en kennarinn lýsti því nú eiginlega yfir í síðustu viku að enginn myndi ná! Við sjáum bara til hvernig það fer.
Svo eru bara fimm vikur í heimkomu og hlakka ég ekkert smá mikið til. Þetta er alveg komið gott í bili. En auðvitað er ég að skemmta mér konunglega hérna.
Er flutt til Sólu og Stefáns og er hér í góðuyfirlæti með yndislegum vinum!
La vita è bella!
Þórunn
24.4.2009 | 21:29
Nú er sumar gleðjist gumar gaman er í dag!
Ég er reyndar ekki viss hvernig þessi texti er en það er alveg á hreinu að það er komið sumar í Hollandi eða allavega að mínu mati. Hollensku vinkonur mínar eru ekki sammála en hvað um það. Dagarnir eru búnir að vera yndislegir, sól og blíða og ég hef ekki undan að liggja í sólbaði. Það er nú reyndar ekki alveg þannig að ég geri ekkert annað en er búin að vera rosalega dugleg að vinna að undanförnu. Svo er auðvitað hægt að finna ýmsar leiðir til að læra úti í sólinn þannig að "ground tanið" er komið!!!
Af skólanum er það að frétta að ég náði píanóprófinu mínu. Ég er ekki mesti snillingurinn á píanó eins og margir vita og gleymi ég ekki athugasemd frá Láru Bryndísi einu sinni "Þórunn mín þú ættir kannski að fara að læra á píanó" en í umsögninni frá kennaranum sagði að ég væti með góðan rythma og exellent karakter. Aðal málið er samt bara að ég náði. Svo erum við á fullu að undirbúa Mozart tónleikana sem eru 16. maí og það er þvílíkt gaman í hóptímunum núna. Mikil gleði að vera að vinna svona flotta tónlist. Annars er ekkert sérstakt að frétta. Lífið gengur sinn vanagang og ég er farin að hlakka til að koma heim en ég kem þann 21. júní er meira að segja búin að kaupa miðann. Við þurfum að fara úr íbúðinn þan 15. maí og flyt ég þá til elsku Sólar og Stefáns en þau eru svo yndisleg að leyfa mér að vera hjá sér í mánuð.
Í næstu viku er frí í skólanum g ætla ég bara að taka því rólega fyrripart vikunnar en er svo boðið til Freisland um næstu helgi og hlakka ég þvílíkt mikið til. Það verður yndislegt og ætla ég að taka sundbolinn minn með með því ég er búin að ákveða að það verður gott veður og ég get bara legið á ströndinni í sólbaði! Stundum finnst mér eins og líf mitt hérna sé ekki raunverulegt. Finnst ég bara vera í endalausu fríi að hafa það gezellig eins og Hollendingarnir segja það en það þýðir að hafa það kósí, notalegt og yndislegt!
Set inn nokkrar myndir síðan Stefanía var í heimsókn hjá mér!
Þúsund kossar:*
Ykkar Þórunn Vala
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.4.2009 | 22:19
Engar fréttir, góðar fréttir!
21.3.2009 | 11:07
Bara smá!
Ætla bara að setja inn stutta færslu núna. Finnst einhvern veginn eins og enginn lesi þetta hvort sem er. En vorið er komið í Hollandi, loksins. Sólin er búin að skína núna alla vikuna og ég er komin í leggings og búin að naglalakka táneglurnar, tilbúin að takast á við sumarið. Stærsti sigurinn þessa dagana er að ég er farin að hjóla aftur á hverjum degi. Þvílíkt frelsi. Já það þýðir víst ekki að gefast upp fyrir því sem hræðir mann. Það er bara að horfast í augu við hlutina og sigrast á þeim.
Það er nóg að gera hjá mér. Ég er komin með fasta vinnu í skólanum og vinn núna 2-5 tíma á dag sem er frábært. Næsta verkefni er Mozart ensembles og ég er að syngja Vitelliu úr La Clemenza di Tito og Elviru úr Don Giovanni, þvílíkt spennandi. Svo er ég að syngja á tónleikum á þriðjudaginn, hádegis barrok. Alveg dásamleg tónlist eftir meistara Bach. Og svo má ég ekki gleyma því að hún Jana mín er að koma eftir viku eða á laugardaginn og svo kemur Stefanía um páskana og ég er að reyna að pressa á Erlu og Binna að koma líka þá. Þá verður kátt í höllinni.
Ekki má ég gleyma félagslífinu því það er í blóma og partý á eftir partý. Set kannski inn myndir sem fyrst en ætla að fara að skoppa út í sólina á bleiku skónum mínum.
Þangað til næst!
Ykkar Þórunn Vala
26.2.2009 | 13:02
Hættu aldrei að leita og ögra!
Lífið gengur sinn vana gang í Niðurlöndum. Ég mæti í skólann, ég fer út að skokka, ég æfi mig, fer í matarboð og lifi rólyndislífi. Stundum mætti vera aðeins meiri hasar í gangi finnst mér. Hollendingar eru ekki að stressa sig á hlutunum og taka öllu bara rólega. Sem er auðvitað mjög gott fyrir mig Íslendinginn að læra. Ég er til dæmis í fríi á fimmtudögum af því að ég fattaði það að ég fékk alla tónlistarsöguna metna en er búin að mæta í alla tímana í vetur og fara í próf og ég veit ekki hvað og hvað. Samviskan að drepa mig stundum.
Tónleikarnir á föstudaginn gengu bara vel og var ég nokkuð ánægð með mig. En það er samt alltaf þetta EN! Ég hefði viljað njóta mín betur, gleyma mér en það er nú alltaf þannig. Svo taka núna við þýsk ljóð og er ég að syngja Strauss, sem er æðislegt. Það er mjög mikið að gerast í röddinni minni þessa dagana og svo ég sé alveg hreinskilin þá er það ekki alltaf gott eða öllu heldur þægilegt, það tekur rosalega á tilfinningalega. Ég er að losna við spennu sem ég er búin að vera að eiga við í nokkur ár. Það tekur tíma og verð ég því að vera þolinmóð. Ekki minn stærsti kostur! Mér hefur alltaf fundist best að vera hreinskilin og það er mannkostur að koma hreint fram. Lífið er auðvitað yndislegt en það á ekki að vera auðvelt eins og pabbi segir. Dagarnir hér eru því misjafnir og sumir eru dans á rósum en aðrir eru þyrnum stráðir. Auðvitað er það það sem gerir mann sterkari og betri manneskju fyrir vikið. Ein speki sem mér finnst gott að lesa öðru hvoru er þessi:
Hættu aldrei að leita og ögra.
Uppgvötaðu hvað þú vilt gera
og gerðu það vel
Megirðu tileinka þér nýja kunnáttu,
ljúktu verki sem þú ert ánægð með,
finna að þú skilur eitthvað þér áður hulið,
uppgvöta eitthvað þér áður óþekkt.
Taktu framtíðinni af hugrekki og von,
eldmóði, orku og gleði.
Og úr öllu þessu skapaðu þér líf
sem þess virði er að lifa því.
Mér líður samt ekkert illa hérna en auðvitað er þetta erfitt. Það var enginn búinn að segja að þetta væri auðvelt, að búa einn í útlöndum. Stundum finnst mér eins og allt eigi að vera svo frábært og æðislegt en það er það kannski ekkert. En ég er forréttinda manneskja, ég veit það. Það eru forréttindi að fá að stúdera og hvað þá að stúdera tónlist í yndislegu umhverfi með yndislega kennara og góða vini. Í kvöld ætlum við stöllur svo að skella okkur í óperun í A'dam að sjá I Puritani eftir Bellini og verður það yndislegt og ég held ég fái mér bara hvítvínsglas og njóti þess að vera til. Takk elsku allir fyrir yndislegar kveðjur og það eru auðvitað allir alltaf velkomnir í heimsókn. Alla daga;)
Knús og kossssssar frá Niðurlöndum
Ykkar Þórunn Vala
17.2.2009 | 20:04
Hvað skal segja?
Mér finnst ég einhernveginn ekki hafa neitt að segja núna. Dagarnir líða og vonandi fer að koma vor bráðum. Ég keypti risavönd af bleiku túlípönum á markaðinum á föstudaginn og minna þeir mig alltaf á lagið Tulpen uit Amsterdam.
Það gengur bara vel í skólanum og tónleikar á föstudaginn. Þá fæ ég loksins að syngja Schumann sem ég er búin að verað að tala um síðan um ármótin. Verð að viðurkenna að það verður gaman að fara að takast á við nýja hluti í næstu viku. Ég fór aftur til A'dam um síðustu helgi en það var íslenskur tónlistardagur í tónlistaháskólanum þar í borg. Þar voru samankomnir íslenskir nemendur úr evrópu og voru flutt verk eftir Jón Leifs, Huga Guðmunds og Skálholtsmessuna eftir Hróðmar. Dásamleg tónlist. Og svo var auðvitað partý á eftir og leið mér bara eins og ég væri komin í Tónó / mh-partý það var mjög gaman. Okkur Lilju var boðið að gista í A'dam en ákváðum að taka næturlestina heim enda alltaf best að vakna í sínu eigin rúmi. Þetta er nú allt of sumt sem er að gerast í mínu lífi þessa daga. Set inn nokkrar myndir frá heimilishaldinu á Zutphenlaan (suddabæ) og lífinu í Hollandi!
Kisskisssss:*
Hjalti kom í heimsókn og eldaði mjög góða Túnfisksteika.
Matarboð í Jónshúsi.
Í Conservatorium van Amsterdam
Á góðri stund eftir tónleikana, veit ekki alveg hvað Guggý sá.....
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2009 | 23:08
Lífið í Trekt þessa dagana!
Alltaf sama afsökuninn en það er bara búið að vera svo brjálað að gera hjá mér. Ég er búin að vera að taka þátt í verkefni hjá honum Ivani vini mínum en hann er í tónsmíðadeildinni. Við fluttum tvö kórverk eftir hann á tónleikum í gær og er ég mjög fegin að það er búið. Flott stykki, en erfitt að koma saman. Maður er líka kannski svolítið spilltur í þessum málum enda góðu vanur. Strengjakvertettsverkefnið er enn í gangi og söng ég í hóptímanum á síðasta föstudag. Það gekk bara mjög vel og verður spennandi að heyra hvað Lottie segir í söngtímanum á morgun. Þetta verður flutt á tónleikum í næstu viku eða þann 21. feb.
Svo er ég að taka þátt í litlu kantötuverkefni með krökkum úr barrokdeildinni. Við erum að fara að flytja kafla út kantötu númer 100, 99 og 94, mjög spennandi verkefni. Þannig að það gengur sem sagt bara mjög vel og um nóg að hugsa. Ég er líka búin að vera ágætlega dugleg að fara á tónleika og gera ýmsa hluti. Við fjölmenntum í janúar á sýninguna hans Elmars í A'dam og stóð hann sig með prýði, auðvitað, var stjarnana í sýningunni! Svo bauð Channa mér með sér á tónleika í Concertgebouw á fimmtudaginn. Þar var flutt Requiem eftir Dvorák, yndisleg tónlist og flottir söngvarar og svo ég tala nú ekki um hljómsveitina en hún var hreinn unaður að hlusta á enda sú besta í heiminum í dag (samkvæmt einhverjum lista) Pabbi hennar spilar í hljómsveitinni og bauð hún mér að koma með sér. Ég var svo seint á ferðinni þannig að ég ákvað að gista í Jónshúsi, sem var auðvitað yndislegt.
Það var svo smá "fjölskylduhittingur" á laugardaginn, einnig í Jónshúsi, en litla fjölskyldan í Trekt fór í pönnsur (sem ég bakaði) til A'dam. Svo eldaði Heiðrún mjög góðan mat og áttum við yndislega kvöldstund saman sem verður sett í minningarbankann. Takk fyrir yndislegan dag allir.
jahá held bara hreinlega að ég muni ekki meira í bili. Bara ein setning sem ég hugsa oft um úr Alkemistanum.
It is the possibility of having a dream come true that makes life interesting!
Og það er einmitt það sem ég er að gera hérna í Hollandi, að láta drauminn rætast og þá er ekki annað hægt en að vera glöð, kát og ánægð með lífið!!!
Elska ykkur öll kæru vinir!
Ykkar Þórunn Vala